top of page

SÍSL – Sérfræðingateymi í samfélagi sem lærir

 

Markmið verkefnisins er að færa kennurum í skólum án aðgreiningar verkfæri sem hjálpa þeim að koma til móts við náms- og færniþarfir fjölbreytts nemendahóps í stórum bekkjardeildum.BRAUTRYÐJANDASTARF

 

Hugmyndin að SÍSL verkefninu er komin frá Huldu Karen Daníelsdóttur, sem starfaði í u.þ.b. tvo áratugi sem kennsluráðgjafi og sérfræðingur í íslensku sem öðru tungumáli og millimenningarfræðslu.

 

Sögu SÍSL verkefnisins má rekja aftur til ársins 2008 en þá hóf Hulda Karen að leita samstarfs við skólayfirvöld og kennara um að innleiða aðferðir sem hafa verið mikið rannsakaðar og gefið góða raun í Bandaríkjunum og víðar.

 

Aðferðirnar sem um ræðir eru Peer-Assisted Learning Strategies eða PALS sem hlotið hefur nafnið Pör Að Læra Saman á íslensku og 6+1 Traits of Writing sem hefur verið þýtt sem 6+1 vídd ritunar. Í samstarfi við aðra stóð SÍSL einnig fyrir fjölmennum námskeiðum í Co-Teaching eða Teymiskennslu og Daily 5 sem er kallað Fimman á íslensku.

Hulda Karen stýrði verkefninu af fádæma elju í yfir tíu ár, sótti um styrki, fékk erlenda sérfræðinga til landsins til að kynna aðferðirnar, lét þýða handbækur og stóð fyrir fjölmörgum námskeiðum þar sem fleiri hundruð íslenskra kennara fengu þjálfun svo eitthvað sé nefnt. Vefur verkefnisins er einnig tilkominn að tilstuðlan hennar. Netfang Huldu Karenar er hulda.karen.danielsdottir@gmail.com

STUÐNINGSAÐILAR

 

SÍSL verkefnið hefur fengið styrki frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og innflytjendaráði.

Höfundar PALS aðferðarinnar hafa góðfúslega gefið SÍSL leyfi til að þýða útgefið PALS efni yfir á íslensku og þjálfa íslenska kennara í PALS. Þeir hafa einnig gefið leyfi fyrir því að þýdda efnið ásamt námskeiðum í PALS verði vistað á netinu svo íslenskir kennarar, foreldrar, fræðimenn og aðrir áhugasamir geti nálgast það, sér að kostnaðarlausu. Hér má nálgast heimasíðu höfunda PALS:

https://frg.vkcsites.org/what-is-pals/

Picture 1.png

Kveikja og markmið SÍSL verkefnisins

 

Strax í upphafi verkefnisins benti Hulda Karen á að margir starfandi kennarar í skóla án aðgreiningar hefðu ekki yfir að ráða verkfærum sem eru nauðsynleg til að hægt sé að koma til móts við náms- og færniþarfir fjölbreytts nemendahóps í stórum bekkjardeildum. Það var einmitt þessi skortur á verkfærum sem var hvatinn að því að SÍSL verkefninu var ýtt úr vör. Hulda Karen hélt því fram að:

 

  • Kennarar þurfa verkfæri til að nota í skóla án aðgreiningar

  • Kennarar þurfa þjálfun í góðum gagnreyndum aðferðum

  • Starfsþróun kennara í aðferðum þarf að vera sjálfbær

  • Kennarar þurfa að tilheyra samfélagi sem lærir.

  • Þekkingin þarf að dreifast

 

Mikilvægast þótti henni að starfsþróun kennara væri sjálfbær og átti þá við að henni væri fylgt eftir með markvissum hætti svo hún gæti orðið hluti af skólamenningu viðkomandi skóla og að ekki fjari undan henni eins og allt of oft vill verða.

Sagan

 

Fyrsta gagnreynda kennsluaðferðin sem Hulda Karen valdi að miðla til íslenskra kennara var 6+1 vídd ritunar. Á vegum SÍSL verkefnisins kom til landsins sérfræðingur frá Bandaríkjunum til þess að þjálfa íslenska kennara í aðferðinni og leyfi til þess að þýða hluta handbókar og annað efni fékkst hjá Scholastic útgáfunni. Næst varð PALS fyrir valinu, en Hulda Karen hafði hlustað á kynningu Önnu-Lindar Pétursdóttur, nú prófessors hjá Menntavísindasviði, á K-PALS og heillaðist af aðferðinni. Í samvinnu við Önnu-Lind sem þekkti höfunda PALS, hófst Hulda Karen handa við að undirbúa námskeið í aðferðinni hér á landi. Í gegnum sambönd Önnu-Lindar voru fengnir erlendir fyrirlesarar til landsins til að kenna á námskeiðum. Viðtökurnar hér heima voru góðar og tókst að þýða handbækur og þjálfa íslenska kennara til að kenna á námskeiðunum, á frekar skömmum tíma.

 

Kennararnir

 

Án góðra kennara gerist ekkert, eins og alþjóð veit og hefur SÍSL verkefnið verið einstaklega heppið með kennara. Ásdís Hallgrímsdóttir, Kristín Inga Guðmundsdóttir og Erla Erlendsdóttir hafa kennt á námskeiðum í PALS lestri fyrir 2.-6. bekk. Heiðveig Andrésdóttir, Elsa María Hallvarðsdóttir, Kristín Svanhildur Ólafsdóttir og Sólveig Eddu Ingvarsdóttur hafa kennt K-PALS námskeiðin. Heiðveig og Sólveig Edda haf líka kennt PALS námskeiðin um grunnþættina. Anna Kristín Arnarsdóttir og Svava Þórhildur Hjaltalín hafa kennt öll námskeið í PALS stærðfræði og Anna Sjöfn Sigurðardóttir og Borghildur Sigurðardóttir hafa kennt öll námskeið um 6+1 vídd ritun hér á landi.

 

Samstarfsaðilar

 

SÍSL verkefnið var í upphafi unnið í nánu samstarfi við skólaskrifstofurnar í Mosfellsbæ og á Akranesi. Einnig hefur verkefnið notið góðs af ráðgjöf Steinunnar Torfadóttur, Helgu Sigurmundsdóttur, Önnu-Lindar Pétursdóttur og Guðbjargar Pálsdóttur sem allar starfa hjá Menntavísindasviði.

 

Höfundar PALS voru frá upphafi hliðhollir þessu framtaki hér á landi og sáttir við að aðferðinni væri miðlað á SÍSL vefnum, notendum að kostnaðarlausu.

 

Það skal tekið fram að SÍSL er þróunarverkefni og hefur tekið nokkrum breytingum í tímans rás eins og gengur og gerist. Eldri upplýsingar um SÍSL verkefnið er að finna á http://tungumalatorg.is/sisl/verkefni%c3%b0/

bottom of page